154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:13]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann nefndi réttarríkið og fór um það fögrum orðum. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það sé nokkuð sem skiptir máli. Réttarríkið, á ensku „the rule of law“, er sú hugmynd að allir borgarar og stofnanir innan ríkis og samfélags lúti sömu lögum og enginn sé þeim æðri. Er það gjarnan skilgreint þannig að réttarríkið séu þau kerfi, þeir ferlar, stofnanir, framkvæmd eða viðmið sem stuðli að jafnrétti borgaranna gagnvart lögunum og verndi þá gagnvart geðþóttastjórn og misbeitingu valds.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um lagaheimildir sem heimila lögreglu, með skipulögðum hætti og gríðarlega ítarlegum hætti, að fylgjast með ferðum einstaklinga, almennum borgurum sem hvorki hafa brotið af sér né eru yfir höfuð grunaðir um að hafa gert það, fylgjast með þeim í rauninni frá því þeir bara að stíga út fyrir dyrnar heima hjá sér og safna upplýsingum og taka það allt saman. Telur hv. þingmaður að það að slíkar lagaheimildir séu veittar án þess að fyrir hendi séu tæki til þess að koma í veg fyrir að þeim verði misbeitt samrýmist grundvallarhugsun réttarríkisins? Þetta er fyrri spurningin sem ég beini til hv. þingmanns.